Jafntefli í fyrsta leik á HM

Lovísa Thompson lék afar vel með íslenska landsliðinu gegn Suður-Kóreu …
Lovísa Thompson lék afar vel með íslenska landsliðinu gegn Suður-Kóreu í dag og skoraði m.a. sjö mörk úr átta skotum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna, skipað leikmönnum 20 ára og yngri, gerði jafntefli við Suður-Kóreu í fyrsta leik sínum á heimsmeistaramótinu sem hófst í Ungverjalandi í morgun. 

Lið Suður-Kóreu var með fjögurra marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 16:12. Íslenska liðið sýndi hins vegar margar sínar bestu hliðar í síðari hálfleik og jafnaði metin. Á lokakafla leiksins var íslenska liðið komið með eins marks forskot. M.a. kom Sandra Erlingsdóttir íslenska liðinu yfir, 29:28, þegar rúm mínúta var til leiksloka. Suður-Kóreuliðinu tókst að jafna metin á síðustu sekúndum.

Mörk Íslands: Lovísa Thompson 7, Andrea Jacobsen 5, Sandra Erlingsdóttir 4, Berglind Þorsteinsdóttir 3, Berta Rut Harðardóttir 3, Ásdís Guðmundsdóttir 2, Lena Margrét Valdimarsdóttir 2, Ragnhildur Edda Þórðardóttir 1, Mariam Eradze 1, Halldóra Sólveig Stefánsdóttir 1. 

Ástríður Glódís Gísladóttir varði 6 skot í markinu og Heiðrún Dís Magnúsdóttir 2 skot. 

Næsti leikur íslenska liðsins á mótinu verður við lið Slóvena á morgun. Slóvenar mæta Sílebúum í lokaleik fyrstu umferðar C-riðils á eftir. Fyrr í dag kjöldrógu Rússa landslið Kína, 35:16, í riðli íslenska liðsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert