Einar ekki með Selfyssingum í Litháen

Einar Sverrisson sækir að vörn Klaipeda Dragunas um síðustu helgi.
Einar Sverrisson sækir að vörn Klaipeda Dragunas um síðustu helgi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stórskyttan Einar Sverrisson verður ekki með Selfyssingum á morgun þegar þeir mæta litháíska liðinu Klaipeda Dragunas í síðari viðureign liðanna í 1. umferð EHF-keppninnar í handknattleik í Litháen.

Einar varð eftir heima þar sem kona hans á von á barni að sögn Patreks Jóhannessonar þjálfara Selfyssinga. Það verður skarð fyrir skildi en Einar skoraði átta mörk í fyrri leik liðanna og var markahæstur þar sem Selfyssingar fögnuðu sigri með sex marka mun 34:28.

„Þau hjónakornin eiga von á sínu fyrsta barni og við höfðum alveg skilning á því að hann yrði eftir heima. Vissulega er það blóðtaka fyrir okkur að hafa hann ekki. Einar var virkilega góður í úrslitakeppninni og fylgdi því eftir í fyrri leiknum um síðustu helgi. En það verða bara aðrir menn að stíga upp og taka af skarið,“ sagði Patrekur í samtali við mbl.is í dag.

Selfyssingar komu til Klaipeda í Litháen í gær ásamt um þrjátíu stuðningsmönnum sínum sem munu styðja hressilega við bakið á sínum mönnum á morgun.

Patrekur Jóhannesson þjálfari Selfyssinga.
Patrekur Jóhannesson þjálfari Selfyssinga. Eggert Jóhannesson

„Við tókum eina æfingu í gær og tökum aðra æfingu í kvöld þar sem við stillum saman strengi okkar fyrir leikinn. Við vitum vel að það er ekkert í höfn ennþá þrátt fyrir að við séum með sex marka forskot. Það er bara hálfleikur í þessu einvígi. Litháarnir munu pottþétt byrja leikinn með látum og reyna að sprengja hann upp. Við verðum að vera tilbúnir og spila bara okkar leik. Ef menn fara að gera eitthvað annað en þeir eru bestir í er hætt við að það komi fljótt í bakið á manni. Þessi leikur leggst vel í mig og við ætlum að komast áfram í þessari keppni,“ sagði Patrekur.

mbl.is