„Möguleikarnir mjög litlir“

Þórir Hergeirsson.
Þórir Hergeirsson. AFP

Þórir Hergeirsson, þjálfari Evrópumeistara Norðmanna í handbolta kvenna, segir að möguleikar síns liðs á að komast í undanúrslitin á EM í Frakklandi séu ansi litlir.

Norðmenn steinlágu fyrir Rúmenum 31:23 í lokaumferð riðlakeppninnar í gær og þar með er ljóst að norska liðið fer í milliriðilinn án stiga en Noregur tapaði fyrir Þýskalandi í fyrstu umferð riðlakeppninnar. Tapið hjá Norðmönnum var það stærsta í sjö ár eða í 178 leikjum.

„Við verðum að vera raunsæ og segja að möguleikar okkar séu tölfræðilegir en líkurnar eru ekki miklar. Nú þurfum við bara að hugsa um okkur sjálf, reyna að vinna næsta leik og taka hvern leik fyrir sig. Svo kemur í bara í ljós hvað gerist í öðrum leikjum en möguleikarnir á að komast í undanúrslitin eru ekki miklir,“ sagði Þórir við norsku sjónvarpsstöðina TV2 eftir leikinn.

Þórir hefur stýrt norska kvennalandsliðinu frá árinu 2001 og hefur náð hreint út sagt frábærum árangri með það. Undir hans stjórn hafa Norðmenn unnið tvo heimsmeistaratitla, þrjá Evrópumeistaratitla og tvo ólympíumeistaratitla.

Norðmenn mæta Ungverjum, Hollendingum og Spánverjum í milliriðlinum. Tvær efstu þjóðirnar í milliriðlinum tveimur komast í undanúrslitin en staðan í milliriðli Noregs lítur þannig út:

4 - Rúmenía
4 - Holland
2 - Ungverjaland
2 - Þýskaland
0 - Spánn
0 - Noregur

Í milliriðli 1 er staðan þessi:

4 - Rússland
2 - Serbía
2 - Frakkland
2 - Svíþjóð
2 - Danmörk
0 - Svartfjallaland

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert