Afturelding áfram í toppsætinu

Þóra María Sigurjónsdóttir skoraði sjö mörk fyrir toppliðið.
Þóra María Sigurjónsdóttir skoraði sjö mörk fyrir toppliðið. Ljósmynd/Afturelding.is

Afturelding er áfram í toppsæti Grill 66 deildar kvenna í handbolta eftir sannfærandi 36:22-útisigur á Fjölni í kvöld. ÍR er enn aðeins einu stigi á eftir, en ÍR hafði betur gegn Stjörnunni U, 31:24.

Afturelding var með 18:12-forskot á Fjölni eftir fyrri hálfleikinn og hélt áfram að bæta í, eftir því sem leið á leikinn. Hin japanska Kiyo Inage var markahæst hjá Aftureldingu með níu mörk, Jónína Líf Ólafsdóttir gerði átta og Þóra María Sigurjónsdóttir skoraði sjö. Ólöf Ásta Arnþórsdóttir skoraði átta fyrir Fjölni. 

Í Garðabæ var staðan í hálfleik hjá ÍR og Stjörnunni U var 20:7, ÍR í vil. Gestirnir gátu leyft sér að slaka örlítið á í síðari hálfleik en lönduðu öruggum sigri. Jóhanna Björk Viktorsdóttir skoraði sex mörk fyrir ÍR og Dagbjört Rut Friðfinnsdóttir skoraði sjö fyrir Stjörnuliðið. 

Fylkir er fjórum stigum frá toppsætinu eftir sannfærandi sigur á Víkingi á heimavelli, 32:16. Hrafnhildur Irma Jónsdóttir skoraði sex mörk fyrir Fylki, eins og Selma María Jónsdóttir. Katrín Hallgrímsdóttir skoraði fjögur fyrir Víking. 

Úrslit kvöldsins í Grill 66 deild kvenna:

Stjarnan U - ÍR 24:31
Fylkir - Víkingur R. 32:16
Fram U - HK U 26:24
Grótta - Valur U 29:34
Fjölnir - Afturelding 22:36

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert