„Þá var ég kjúklingur í allt of stórum búningi“

Hanna Guðrún Stefánsdóttir er nýorðin fertug og hefur margoft spilað …
Hanna Guðrún Stefánsdóttir er nýorðin fertug og hefur margoft spilað mikilvæga leiki í Laugardalshöllinni. mbl.is/Eggert

„Þær eru bestar á landinu í dag,“ segir Hanna G. Stefánsdóttir, hin reynslumikla handboltakona úr Stjörnunni, um lið Fram fyrir undanúrslitaleik liðanna í Coca Cola-bikarnum í Laugardalshöll í kvöld.

Fram er fjórum sætum og 16 stigum fyrir ofan Stjörnuna í Olís-deildinni og hefur unnið tvo af þremur innbyrðis leikjum liðanna í vetur, en einum lauk með jafntefli. Þegar liðin mættust í síðustu viku var mjótt á mununum en Fram vann 29:28-sigur.

„Þegar komið er í bikar þá finnst mér þetta alltaf vera 50:50-leikir. Þetta fer allt eftir líkamlegu ástandi, hug og spennustigi. Maður verður að berjast í 60 mínútur,“ segir Hanna, en hún hefði ef til vill ekki svarað eins fyrir áramót, þegar Stjarnan átti erfitt uppdráttar og tapaði til að mynda með ótrúlegum mun, 47:24, fyrir Fram.

„Já, þá hefði ég kannski sagt að þetta væri 60:40-leikur,“ segir Hanna létt í bragði. „Við erum búnar að bæta okkur með hverjum einasta leik í vetur. En ég lít líka á bikarinn sem bara annars konar keppni, það er meiri stemning og maður þarf að passa sig að halda sér niðri. Spennustigið skiptir máli. Þetta er ógeðslega skemmtileg keppni, sem allir vilja taka þátt í og við eigum að njóta þess að vera í Höllinni,“ segir Hanna, sem veit hvað hún syngur í þessum efnum. Hún hefur sex sinnum orðið bikarmeistari, fyrst fyrir 22 árum! Hanna man vel eftir því:

„Þá var ég bara kjúklingur í allt of stórum búningi. Ef maður skoðar myndir af þessu þá er þetta bara eins og að búningur sé að hlaupa inn á völlinn en ekki leikmaður. En þetta er bara alltaf gaman. Mér finnst þetta skemmtilegasti bikarinn.“

Fram með besta liðið á landinu

Fram er ríkjandi Íslands- og bikarmeistari og ljóst að við ramman reip verður að draga fyrir Hönnu og stöllur hennar í kvöld, en leikurinn hefst kl. 20:15 eftir undanúrslitarimmu Vals og ÍBV.

„Þær [Framkonur] eru með hörkulið. Mér finnst þær vera með besta liðið á landinu, mjög góða leikmenn í hverri einustu stöðu og nánast hálft landsliðið. Þær hafa spilað mjög lengi saman, eru hraðar og sterkar og kunna vel inn á hver aðra,“ segir Hanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert