Sebastian gripinn í bólinu

Sebastian Alexandersson.
Sebastian Alexandersson. mbl.is/Eggert

Sebastian Alexandersson, þjálfari Stjörnunnar, var sáttur við leik sinna kvenna í kvöld að mörgu leyti en liðið beið lægri hlut gegn ÍBV í spennandi leik sem fram fór í Vestmannaeyjum, í 17. umferð Olís-deildar kvenna.

„Mér fannst leikurinn athyglisverður fyrir margar sakir, við vorum fyrir það fyrsta að spila vörn sem við höfum aldrei spilað áður og aðeins æft í 1-2 daga. Mér fannst það takast stundum vel en eðlilega þegar maður bryddar upp á nýjungum þá þarf að slípa þær til. Mér fannst við spila sóknarleikinn í fyrri hálfleik frábærlega en öflugt lið eins og ÍBV gerir okkur erfitt fyrir, auk þess þá tekur varnarleikur líkt og við spiluðum mikinn toll af leikmönnum,“ sagði Sebastian en vörnin opnaðist oft illa í byrjun leiks.

„Ég er ekki að ýkja neitt þegar ég segi að við erum með 7-9 stangarskot úr mjög góðum færum, það er rosalega dýrt í svona leik en Jenný ver einnig nokkra öfluga lykilbolta á mikilvægum augnablikum. Síðan skrifast þessi síðasta sókn okkar því miður á mig, ég var gripinn í bólinu, ég hefði sjálfur skipt um vörn og hefði átt að sjá það fyrr að ÍBV myndi skipta um vörn. Ég kom síðan ekki skilaboðum inn á fyrir hávaða til þess að bregðast við.“

ÍBV átti í miklum erfiðleikum með að skora í undanúrslitaleik sínum á fimmtudaginn þar sem vörn Vals lokaði vel á sóknarleik ÍBV, var það eitthvað sem þjálfarar Stjörnunnar nýttu sér í undirbúningi leiksins?

„Valur er bara Valur og við erum bara við. Við höfum náð að halda Val í rétt rúmum 20 mörkum í vetur og þær eru frábært lið. Í dag erum við að fá á okkur 25 mörk og skorum 23, við erum alltaf að skora þetta og stundum upp í 30. ÍBV er bara ÍBV og það skiptir engu máli hvað Valur gerir, þær spiluðu 6-0 og við spiluðum 3-3 þannig að þetta snýst ekkert um það. Við vorum að vonast til að fá eitthvað héðan, en ÍBV hefur verið með gott tak á okkur í vetur, okkur fannst við þurfa að brydda upp á einhverju nýju til þess að eiga séns. Við gáfum okkur séns en síðasta sóknin skrifast á mig, ég hefði átt að sjá þessa varnarskiptingu fyrir og þá hefðum við kannski náð jafntefli.“

Vörn Stjörnunnar gerði samt oft og tíðum vel og tapar lið ÍBV boltanum 18 sinnum, þar af 11 sinnum beint í hendur leikmanna Stjörnunnar.

„Þessi vörn gengur út á það að láta andstæðinginn annaðhvort gera mistök eða taka léleg skot, þegar hún klikkar þá klikkar hún mjög illa. Í ljósi þess hve stuttan tíma við höfum verið að vinna með þessa vörn er ég rosalega stoltur af því að vera með leikmenn sem geta brugðist við með svo stuttum fyrirvara og haft trú á því sem er verið að gera. Við gerðum ÍBV erfitt fyrir, spiluðum þrjár varnir í dag og létum ÍBV hafa virkilega mikið fyrir þessu. Ég er mest svekktur að Hrabba [Hrafnhildur, þjálfari ÍBV] hafi ekki farið í 7 á móti 6, við undirbjuggum það best.“

Stjarnan hefur spilað við Hauka, Val, Fram og ÍBV í síðustu þremur umferðum og tekist að gera tvö jafntefli og síðan tapað með einu marki gegn Fram og tveimur gegn ÍBV, þar sýna leikmenn Stjörnunnar að það er mikið í þær spunnið.

„Eins og staðan er í dag erum við ekkert síðra lið en bestu lið landsins, við vorum langt frá því í haust. Tíminn er búinn að vera vinur okkar en því miður er tímabilið ekki nógu langt fyrir okkur, það vantar enn þá lítið upp á. Okkar markmið er að enda næstu þrjá leiki vel og byggja síðan ofan á það, því við ætlum okkur klárlega stóra hluti á næsta ári.“

Vill Basti meina að fjarvera Guðrúnar Óskar Maríasdóttur hafi sett mikið strik í reikninginn hjá Stjörnunni á þessari leiktíð?

„Ég leyfi fólki bara að velta því fyrir sér, án þess að gagnrýna nokkuð mína markmenn, þær eru að gera allt sem þær geta. Fólk getur reiknað sjálft út hvar við værum staddar ef Guðrún hefði ekki meiðst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert