Vignir spilar með Haukum á næstu leiktíð

Vignir Svavarsson.
Vignir Svavarsson. Ljósmynd/Foto Olimpik

Karlalið Hauka í handknattleik fær góðan liðsstyrk fyrir næsta tímabil en línumaðurinn og varnartröllið Vignir Svavarsson hefur ákveðið að snúa heim frá Danmörku og ganga til liðs við sitt gamla félag.

Frá þessu er greint á Facebook-síðu Haukanna í dag. Vignir er uppalinn Haukamaður og lék síðast með liðinu tímabilið 2004-05. Hann varð Íslandsmeistari með Haukunum árið 2005 og hélt út í atvinnumennskuna eftir það tímabil.

Vignir fór frá Haukum til danska liðsins Skjern sem hann lék með í þrjú ár. Þaðan fór hann til þýska liðsins Lemgo þar sem hann vann EHF-bikarinn og hann lék svo einnig með þýsku liðunum Hannover-Burgdorf og Minden. Hann sneri svo aftur til Danmerkur og gekk til liðs við Midtjylland þar sem hann varð bikarmeistari og undanfarin þrjú ár hefur hann spilað með Tvis Holstebro og hefur unnið einn bikarmeistaratitil með liðinu.

Vignir, sem er 38 ára gamall, á að baki 239 leiki með íslenska landsliðinu og var í liðinu sem vann bronsverðlaunin á Evrópumótinu í Austurríki árið 2010.

„Það kom aldrei annað til greina en að koma heim til Hauka og klára ferilinn hjá uppeldisfélaginu mínu segir Vignir í samtali við Facebook-síðu Hauka. „Ég vil miðla minni reynslu til yngri leikmanna og leggja mitt af mörkum til að vinna titla með Haukum. Ég hlakka mikið til að klæðast Haukatreyjunni á ný og hitta allt fólkið á Ásvöllum.“

mbl.is