Dapur að gefa fólkinu ekki oddaleik í Kaplakrika

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH.
Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH. mbl.is/Hari

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH-inga, stýrði liðinu í sínum síðasta leik í dag þegar liðið féll úr leik í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik. Liðið beið lægri hlut gegn ÍBV 36:28 í leik sem náði aldrei að verða spennandi.

„Ég bjóst ekki við því að við myndum tapa svona stórt, langt því frá. Ég hafði fulla trú á því að við myndum vinna hér í dag, við vissum það alveg að þeir voru margir hlutirnir í fyrri leiknum sem við gætum lagað. Þessi fyrri hálfleikur, eða seinni 15 mínúturnar í honum voru hrikalega lélegar. Ég ætla ekki að taka neitt frá ÍBV liðinu þeir spiluðu frábærlega í þessu einvígi, hrikalega þéttir og flottir. Þeir fá frammistöðu frá öllum leikmönnum, frá marki og fram, held ég að hver einasti leikmaður sé að spila sína bestu leiki í vetur,“ sagði Halldór en leikmenn ÍBV léku sannarlega virkilega vel í einvíginu.

Halldór segir þá ÍBV hafa haft þennan X-factor sem þurfi í úrslitakeppni.

„Þú þarft X-factor þegar þú ert kominn í úrslitakeppnina, við vorum bara ekki með neina X-factora. Við vorum undir pari á alltof mörgum stöðum, þetta var allt of erfitt, þegar maður horfir blákalt á þetta þá áttum við ekki séns,“ sagði Halldór en vörn liðsins hélt engu í dag, markvarslan var mun betri en í síðasta leik en þá fylgdi vörnin ekki með.

„Varnarleikurinn er sama kvæðið, mér fannst við fá ágætis vörn í síðasta leik á köflum en þá fylgdi markvarslan ekkert á eftir. Til að vinna svona leik er 25% markvarsla ekki nógu góð, þú þarft X-factora, Birkir var frábær í bikarúrslitahelginni, ásamt öðrum leikmönnum, þú þarft þessa hluti til að vinna svona. ÍBV liðið voru frábærir og við vorum einfaldlega ekki nógu góðir, ég er dapur yfir því að við náum ekki betri leik til að gefa fólkinu okkar þriðja leik í Kaplakrika. Stundum eru íþróttir svona og maður getur ekkert alltaf gert eitthvað í því, stundum eru þær grimmar og stundum vinna þær með þér.“

Ef litið er á tímabilið í heild sinni verða FH-ingar bikarmeistarar, lenda í 4. sæti í deild og falla síðan úr leik í 8-liða úrslitum, er Halldór sáttur?

„Nei, mér fannst það fínn árangur að ná 4. sæti í deildinni, við vorum að keppa um efstu sætin fram á síðustu stundu, það fjaraði undan okkur eftir bikarúrslitin. Við settum okkur markmið fyrir tímabilið, að vera í fyrstu fjórum, við töldum það vera djarft með mikið breytt lið. FH sættir sig ekki við neitt annað en að vera í fremstu röð. Við vinnum bikarúrslitaleikinn, sem var frábært, það er frábært að ganga frá borði eftir tímabilið með bikarmeistaratitilinn, en auðvitað erum við rosalega svekktir að tapa hér í dag. Maður getur alltaf tapað hérna, en við féllum úr leik eins og við ættum ekki séns. Það er erfitt og auðvitað leiðinlegt en stundum er það bara þannig.“

 Halldór heldur á ný mið núna, til Barein, hvers á hann eftir að sakna mest á Íslandi?

„Fjölskyldunnar minnar, inn á milli, þegar ég er að ferðast á milli og þau að ferðast til mín. Auðvitað verður þetta ný áskorun og allt annað hlutverk, ég hlakka mikið til að takast á við þetta verkefni. Maður á eftir að sakna strákanna mikið, ég er búinn að vera fimm ár í Krikanum og margir þeirra verið hjá mér allan tímann. Margir hverjir orðnir eins og synir mínir, ég óska þeim auðvitað alls hins besta á næsta tímabili og á næstu árum. Það tekur alltaf eitthvað nýtt við hjá öllum, ég óska nýjum þjálfara líka velfarnaðar. Það verður frábært fyrir hann að taka vonandi við góðu búi, það verður líka erfitt að fara úr deildinni, það er bara þannig, en maður á kannski eftir að koma aftur,“ sagði Halldór að lokum en það verður mikill missir fyrir deildina að missa þennan góða þjálfara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert