Æðislegt að kveðja svona

Elvar Örn Jónsson fyrir miðri mynd fór á kostum í …
Elvar Örn Jónsson fyrir miðri mynd fór á kostum í kveðjuleik sínum fyrir Selfoss. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er æðislega sætt að kveðja með Íslandsmeistaratitli,“ sagði Elvar Örn Jónsson, markahæsti leikmaður Selfoss í sigurleiknum á Haukum í kvöld með 11 mörk, þegar Selfoss tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla í fyrsta sinn. Þetta var síðasti leikur Elvars Arnar fyrir Selfoss í bili að minnsta kosti en hann heldur til Skjern í Danmörku í sumar.

„Ég vissi að þetta væri minn síðasta leikur fyrir Selfoss og því lagði ég allt í leikinn. Strákarnir í liðinu hjálpuðu mér einnig mikið með því að búa til öll þau færi sem ég fékk. Liðsheildin var frábær. Hún skóp þennan sigur. Það small bara allt saman hjá okkur í úrslitakeppninni. Í kvöld gekk allt upp hjá  okkur enda vorum við straðráðnir í að klára þetta hér í kvöld fyrir framan okkar stuðningsmenn. Selfoss átti það skilið að vinna Íslandsmeistaratitil. Við sáum til þess. Það er æðislegt að vinna á heimavelli með alla okkar stuðningsmenn á bak við okkur. Okkur þótti það mikilvægt,“ sagði Elvar Örn Jónsson sem í kvöld var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar.

mbl.is