Þeir voru miklu betri

Daníel Þór Ingason, Haukum, í baráttu við Alexander Már Egan, …
Daníel Þór Ingason, Haukum, í baráttu við Alexander Már Egan, Selfossi t.h. og Árna Stein Steinþórsson, t.v. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þeir voru miklu betri en við í kvöld. Flóknara var það ekki. Ég óska Selfoss-liðinu til hamingju,“ sagði Daníel Þór Ingason, einn leikmanna  Hauka, eftir að hann tók við silfurverðlaunum í kvöld þegar Haukar töpuðu fyrir Selfossi í úrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik í þriðja sinn í fjórum viðureignum, 35:25, í Hleðsluhöllinni á Selfossi.

„Upphafskaflinn var ágætur hjá okkur en síðan tóku leikmenn Selfoss-liðsins völdin og létu þau aldrei af hendi það sem eftir lifði leiksins. Þeir gerðu síðan út um leikinn á fyrstu tíu mínútunum í síðari hálfleik. Á þeim kafla tókst okkur ekki að svara fyrir okkur eins og við höfðum lagt upp með að gera þegar við lögðum á ráðin í hálfleik. Það er svekkjandi að ná ekki að vinna titilinn verandi kominn svo nærri honum, ekki síst í ljósi þess að ég er að fara frá Haukum og til Danmerkur í sumar. En varð deildarmeistari með Haukum og fæ nú silfur. Það er betra en fyrir ári síðan,“ sagði Daníel Þór Ingason, leikmaður Hauka, í samtali við mbl.is.

mbl.is