Keyrði ölvaður inn á handboltavöllinn

Leikmenn liðanna hlaupa til búningsherbergja.
Leikmenn liðanna hlaupa til búningsherbergja. Ljósmynd/SolidSport

Ótrúleg uppákoma átti sér stað í handboltahöllinni Vikingahallen í úthverfi Stokkhólms á dögunum þegar þar stóð yfir viðureign Boden og Skåre í keppni U14 ára drengja.

Skyndilega heyrðist ógnarhávaði og bifreið birtist í gati sem kom á höllina við árekstur. Til allrar hamingju gerðist þetta á þeim vallarhelmingi sem var auður þá stundina því sókn stóð yfir að hinu markinu.

Bæði liðin þustu af velli og til búningsherbergja og í hátalarakerfi hússins var fólk beðið um að koma ekki nærri bílnum. Ljóst er að mikil mildi var að enginn var á þeim stað við völlinn þar sem bíllinn birtist.

Fljótlega kom í ljós að ölvaður ökumaður olli þessum harkalega árekstri og lögregluyfirvöld í Stokkhólmi skýrðu frá því að hann hefði verið settur í gæsluvarðhald. Þá var upplýst að ökumaðurinn væri grunaður um morðtilraun í öðru og óskyldu máli.

Atvikið náðist upp á myndskeið sem má sjá hér:

Keyrði inn í handboltahöll

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert