Sterkur sigur Hauka á Akureyri

Berta Rut Harðardóttir skýtur að marki KA/Þórs í dag.
Berta Rut Harðardóttir skýtur að marki KA/Þórs í dag. Ljósmynd/Þórir

Haukar gerðu góða ferð til Akureyrar og unnu 27:21-sigur á KA/Þór í Olísdeild kvenna í handbolta í dag. Staðan í hálfleik var 14:13, Haukum í vil og voru gestirnir úr Hafnarfirði sterkari í seinni hálfleik. 

Sara Odden og Ragnheiður Ragnarsdóttir skoruðu fimm mörk hvor fyrir Hauka og þær Birta Lind Jóhannsdóttir, Berta Rut Harðardóttir og Þórhildur Braga Þórðardóttir skoruðu fjögur mörk hver. 

Katrín Vilhjálmsdóttir skoraði fimm fyrir KA/Þór og Martina Corkovic og Martha Hermannsdóttir gerðu fjögur. Aðeins einu stigi munar á liðunum eftir leikinn. KA/Þór er í fimmta sæti með tíu stig og Haukar í sjötta sæti með níu. 

Stjarnan vann öruggan 31:21-útisigur á Aftureldingu. Staðan í hálfleik var 16:12, Stjörnunni í vil og lentu gestirnir ekki í neinum vandræðum í seinni hálfleik. 

Hanna Guðrún Stefánsdóttir skoraði tíu mörk fyrir Stjörnuna og Dagný Huld Birgisdóttir gerði fimm mörk. Kristín Arndís Ólafsdóttir skoraði sex fyrir Aftureldingu og Anamaria Gugic skoraði fimm. 

Stjarnan er í þriðja sæti með 15 stig, tveimur stigum á eftir Val. Afturelding er í botnsætinu án stiga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert