Gat ekki skilað þriðja hauskúpuleiknum í röð

Aron Pálmarsson í baráttunni við Portúgala í Malmö í dag.
Aron Pálmarsson í baráttunni við Portúgala í Malmö í dag. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

„Við gerðum þetta mjög vel í dag, sérstaklega sóknarlega, þar sem flæðið var mjög gott,“ sagði Aron Pálmarsson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við RÚV eftir 28:25-sigur liðsins gegn Portúgal í milliriðli 2 á Evrópumótinu í Malmö í dag.

„Þeir eru hrikalega seigir og vilja drepa hraðann í sínum leikjum. Þeir spila svona „mitt á milli“ handbolta og eru frábærir í því. Þeir hafa sýnt það í þessari keppni að þeir eru með frábært lið og það er mjög erfitt að eiga við það. Maður heldur að maður sé kominn með tak á þeim en þá poppar upp eitthvert skot eða einhver lokasending upp úr þurru. Við gerðum hins vegar vel, sköpuðum fullt af opnum færum og lokuðum alveg á þeirra sóknaraðgerðir. Bjöggi stóð sig mjög vel í markinu líka og þetta var virkilega flottur leikur hjá öllu liðinu.

Íslenska liðið gerði mjög vel í að loka á sjö manna sóknarleik portúgalska liðsins en önnur lið á mótinu hafa lent í miklum vandræðum með Portúgala sem hafa komið mikið á óvart.

„Við fórum mjög vel yfir þeirra sóknarleik, sérstaklega þegar þeir spila með sjö á móti sex. Við komum mjög framarlega á þá og spiluðum 5-1 gegn þeim sem setti þá í ákveðin vandræði. Þeir fengu ekki þessi auðveldu færi sem þeir hafa verið að fá og þurftu að taka erfið skot sem varð til þess að þeir hættu að spila þessa tegund af sóknarleik.

Aron lék mjög vel í leiknum, skoraði fimm mörk, stóð varnarleikinn vel og var duglegur að búa eitthvað til fyrir liðsfélaga sína.

„Ég þarf að halda standard og ég gat ekki skilað þriðja hauskúpuleiknum í röð. Mér fannst ég skulda góðan leik,“ bætti Aron Pálmarsson við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert