Haukakonur sterkari á lokasprettinum

Guðrún Erla Bjarnadóttir fór mikin í kvöld og skoraði sex …
Guðrún Erla Bjarnadóttir fór mikin í kvöld og skoraði sex mörk fyrir Hauka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Haukar unnu sinn fimmta leik í úrvalsdeild kvenna í handknattleik, Olísdeildinni, þegar liðið heimsótti Aftureldingu á Varmá í Mosfellsbæ í þrettándu umferð deildarinnar í kvöld. Leiknum lauk með 25:21-sigri Hauka en staðan var jöfn í hálfleik, 11:11.

Afturelding byrjaði seinni hálfleikinn betur og náði tveggja marka forskoti eftir 40. mínútna leik, 15:13. Hafnfirðingum tókst að jafna metin, og þegar tíu mínútur voru til leiksloka leiddu Haukar með þremur mörkum, 19:16.

Þann mun tókst Aftureldingu ekki að brúa og Haukakonur fögnuðu dýrmætum sigri. Guðrún Erla Bjarnadóttir og Sara Odden voru markahæstar í liði Hauka með sex mörk hvor. Hjá Aftureldingu var það Ragnhildur Hjartardóttir sem var atkvæðamest með sex mörk. 

Haukar fara með sigrinum upp í tólf stig og jafna þar með HK að stigum en Kópavogsliðið er í fjórða sæti deildarinnar. Afturelding er hins vegar áfram á botni deildarinnar, án stiga, en liðið bíður enn þá eftir sínum fyrsta sigri í deildinni í vetur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert