Patreki sagt upp hjá Skjern

Patrekur Jóhannesson hefur stýrt Skjern í síðasta skipti.
Patrekur Jóhannesson hefur stýrt Skjern í síðasta skipti. Ljósmynd/Skjern

Patrekur Jóhannesson hefur stýrt danska handboltaliðinu Skjern í síðasta skipti. Þetta kom fram á heimasíðu félagsins í dag. 

Áður var gert ráð fyrir að Patrekur léti af störfum hjá Skjern eftir leiktíðina, en Carsten Thygesen, stjórnarformaður félagsins, segir þörf á nýjum manni í brúna. 

„Ég ber mikla virðingu fyrir Patreki og hans aðferðum í þjálfun, en það er ekkert leyndarmál að okkur gengur illa. Við þurfum nýjan mann og nýja orku fyrir úrslitakeppnina,“ sagði Thygesen á heimasíðu félagsins. 

Claus Hansen tekur við Skjern af Patreki, en liðið er í sjötta sæti dönsku deildarinnar með 21 stig eftir 18 leiki. Undir stjórn Patreks vann Skjern tíu leiki, tapaði sjö og gerði eitt jafntefli.

Patrekur tók við Skjern í kjölfar þess að hann gerði Selfoss að Íslandsmeistara á síðustu leiktíð. 

Landsliðsmennirnir Björgvin Páll Gústavsson og Elvar Örn Jónsson leika með Skjern. Björgvin gengur í raðir Hauka eftir tímabilið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert