Þarf að sækja sigurinn líka

Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR-inga, var svekktur eftir naumt tap sinna …
Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR-inga, var svekktur eftir naumt tap sinna mann gegn Val í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Ég er svekktur að fá ekkert út úr þessum leik,“ sagði Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, í samtali við mbl.is eftir 24:23-tap liðsins gegn Val í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í Austurbergi í Breiðholti í nítjándu umferð deildarinnar í kvöld.

„Mér fannst við spila góðan bolta í dag og við hefðum bara hæglega getað tekið stig út úr þessum leik. Við nýttum ekki tækifærin okkar nægilega vel, þegar við hefðum getað tekið stjórn á leiknum, og það er í raun útgangspunkturinn í þessu tapi. Við fengum fjölmörg tækifæri til þess að fá eitthvað út úr leiknum en fórum illa að ráði okkar og ég er klárlega svekktastur með það.“

ÍR-ingar fengu fjölda tækifæri til þess að komast yfir í leiknum en það var hreinlega eins og Breiðhyltingar væru hræddir við að vinna leikinn.

„Ég held að við höfum ekki tapað þessum leik út af litlu sjálfstrausti í liðinu. Við missum Úlf út af snemma með rautt spjald. Sveinn Andri var ekki með og Bjöggi var mjög tæpur allan leikinn. Við vorum að hreyfa liðið mikið og gáfum aðeins eftir í seinni hálfleik, hvort það var út af þreytu veit ég hreinlega ekki. Þegar þú ert að spila á móti besta liði landsins en átt samt svona góðan leik þá er erfitt að benda á lítið sjálfstraust. Við koðnuðum aldrei undan pressunni og héldum þessu í leik allan tímann.“

Þrátt fyrir naumt tap var þjálfarinn sáttur við mjög margt í leiknum sjálfum.

„Mér fannst mjög margir jákvæðir punktar í þessum leik og ég er ótrúlega ánægður með margt. Þetta var jafn leikur, allan tímann, og sigurinn hefði getað dottið hvoru megin sem var en þú þarft að sækja sigurinn líka. Við héldum góðu leikplani í dag og það hefði átt að duga til sigurs,“ sagði Bjarni í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert