Snýr aftur heim í Val

Tumi Steinn Rúnarsson í leik gegn Val.
Tumi Steinn Rúnarsson í leik gegn Val. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Handknattleiksmaðurinn Tumi Steinn Rúnarsson hefur gert tveggja ára samning við Val. Kemur hann til félagsins frá Aftureldingu, en Tumi er uppalinn hjá Val og lék þar áður en hann hélt í Mosfellsbæinn. 

Hefur Tumi verið á meðal bestu leikmanna Aftureldingar síðustu tvö ár og lykilmaður hjá yngri landsliðum Íslands. Tumi skoraði 45 mörk í 19 leikjum með Aftureldingu á síðustu leiktíð og var í fjórða sæti yfir markahæstu menn. 

Tímabilið á undan skoraði hann 75 mörk í 21 leik og var næstmarkahæstur á eftir Elvari Ásgeirssyni. 

Afturelding hafnaði í þriðja sæti í deildinni á síðustu leiktíð, en ekki tókst að ljúka tímabilinu vegna kórónuveirunnar. Valsmenn voru krýndir deildarmeistarar, en liðið var með tveggja stiga forskot á toppnum þegar deildinni var aflýst. 

mbl.is