Aron ekki með á HM

Aron Pálmarsson verður ekki með Íslandi á HM.
Aron Pálmarsson verður ekki með Íslandi á HM. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aron Pálmarsson besti leikmaður íslenska landsliðsins í handbolta verður ekki með liðinu á HM í Egyptalandi vegna meiðsla. Aron varð fyrir meiðslum á hné á dögunum. 

Aron hefur verið landsliðsfyrirliði eftir að Guðjón Valur Sigurðsson lagði skóna á hilluna á síðasta ári.

Er Aron leikmaður Barcelona og lék með liðinu í undanúrslitum og úrslitum Meistaradeildar Evrópu á milli jóla og nýárs, en hann var tæpur fyrir leikina og kom þátttaka hans nokkuð á óvart. 

Eftir læknisskoðun hjá læknum landsliðsins er það ljóst að Aron verður ekki leikfær nú í janúar. Ekki hefur verið kallað á annan leikmann að svo stöddu,“ segir í yfirlýsingu HSÍ. 

Aron missir sömuleiðis af tveimur leikjum gegn Portúgal í undankeppni EM 6. og 10. janúar. Ísland er einmitt í riðli með Portúgal á HM og mætast liðin í fyrsta leik þann 14. janúar. Marokkó og Alsír eru einnig í riðlinum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert