Stórleikur Elínar í langþráðum sigri

Elín Jóna Þorsteinsdóttir leikur með Vendsyssel.
Elín Jóna Þorsteinsdóttir leikur með Vendsyssel. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Markvörðurinn Elín Jóna Þorsteinsdóttir átti stórleik í kvöld þegar lið hennar Vendsyssel vann langþráðan sigur í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik.

Vendsyssel sem er nýliði í deildinni hafði aðeins fengið eitt stig í fyrstu fimmtán leikjum sínum á tímabilinu og sótti heim næstneðsta liðið Skanderborg, sem var fimm stigum ofar. Mikið var í húfi því aðeins neðsta liðið fellur beint en næstu fimm þar fyrir ofan fara í umspil.

Vendsyssel sigraði 28:24 eftir að hafa verið 15:11 yfir í hálfleik og er því með 3 stig en Skanderborg 6 í sætinu fyrir ofan.

Elín var með 38 prósent markvörslu í marki Vendsyssel en hún varði 14 skot, þar af eitt vítakast. Steinunn Hansdóttir skoraði tvö mörk fyrir liðið í leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert