„Við þurftum að rífa okkur upp“

Sigvaldi Björn svífur inn úr horninu í leiknum í dag. …
Sigvaldi Björn svífur inn úr horninu í leiknum í dag. Handknattleikssamband Evrópu leyfir ekki áhorfendur á leikjum um þessar mundir eins og sjá má. Mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Sigvaldi Björn Guðjónsson reyndist Ísraelsmönnum erfiður á Ásvöllum í gær en sprettharka hans og stökkkraftur gafst vel í horninu sem og í hraðaupphlaupum. 

Sigvaldi var markahæstur með 7 mörk í sigri Íslands 39:29 í undankeppni EM 2022. 

„Þetta var skyldursigur. Ég verð að segja það því við eigum að vinna þetta lið með tíu mörkum á góðum degi. Handboltinn í dag er þannig að öll lið geta eitthvað og það er ekki hægt að slaka neitt á. Eftir að hafa tapað fyrir Litháen þá þurftum við að rífa okkur upp og sýna okkur sjálfum og þjóðinni hvað við getum. Við gerðum það mestmegnis af leiktímanum í dag og ég er bara sáttur við þennan leik,“ sagði Sigvaldi þegar mbl.is ræddi við hann á Ásvöllum en með leiknum lauk Ísland keppni í undankeppninni og fram undan er lokakeppni í janúar sem haldin verður í Ungverjalandi og í Slóvakíu. 

Eins og fram hefur komið hefði Ísland getað náð efsta sætinu í riðlinum en tapið í Litháen gerði það að verkum að Portúgal vann riðilinn og Ísland hafnaði í 2. sæti. 

„Ég var mjög svekktur yfir þessum leik í Litháen. Þetta var erfitt. Ég veit ekki hvað við gerðum vitlaust þarna en þetta var alveg ömurlegt. Það var mjög svekkjandi að missa af tækifærinu að vinna riðilinn. Við þurftum að rífa okkur upp í framhaldinu og sýna hvað í okkur býr. Á heildina litið er ég viss um að við munum standa okkur vel á EM enda erum við með flottan leikmannahóp. Nú tekur við að ljúka tímabilinu með okkar félagsliðum og koma okkur í enn betra stand í sumar. Ef við sleppum við meiðsli seinni hluta árs þá getum við komið sterkir inn í mótið í janúar,“ sagði Sigvaldi Björn Guðjónsson í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert