Markahæstur í öruggum sigri

Bjarki Már Elísson heldur áfram að gera það gott í …
Bjarki Már Elísson heldur áfram að gera það gott í Þýskalandi. AFP

Bjarki Már Elísson átti mjög góðan leik fyrir Lemgo þegar liðið vann öruggan sigur gegn Bergischer á heimavelli í þýsku 1. deildinni í handknattleik í dag.

Leiknum lauk með 31:23-sigri Lemgo en Bjarki skoraði sjö mörk og var markahæsti leikmaður vallarins.

Arnór Þór Gunnarsson lék ekki með Bergischer í leiknum en liðið er með 33 stig í ellefta sæti deildarinnar. Lemgo er í tíunda sætinu með 35 stig.

Þá skoraði Oddur Gretarsson eitt mark fyrir Balingen þegar liðið gerði 27:27-jafntefli gegn botnliði Coburg á útivelli en Balingen er með 25 stig í sextánda sæti deildarinnar, stigi frá fallsæti.

mbl.is