París hirti þriðja sætið

Mikkel Hansen, leikmaður PSG, sækir að marki Nantes í leiknum …
Mikkel Hansen, leikmaður PSG, sækir að marki Nantes í leiknum í dag. AFP

París Saint-Germain vann landa sína í Nantes í leiknum um bronsverðlaun Meistaradeildar Evrópu í handknattleik karla í Köln í Þýskalandi í dag.

PSG féll ansi óvænt úr leik gegn Álaborg í undanúrslitunum í gær en jafnaði sig á vonbrigðunum og vann Nantes, sem tapaði gegn Barcelona í gær, 31:28.

Leikurinn var hnífjafn lengi vel en seint í leiknum náði PSG undirtökunum. Eftir að Nantes hafði jafnað í 24:24 sigldu Frakklandsmeistararnir fram úr og náðu 29:25 forystu.

Eftir það varð ekki aftur snúið og PSG tryggði sér þriðja sætið.

Síðar í dag, klukkan 16, fer fram úrslitaleikur Álaborgar og Barcelona. Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Álaborgar og Aron Pálmarsson er kominn aftur í leikmannahóp Barcelona.

mbl.is