Held þeir hafi fundið það strax að þetta væri brekka

Valur fagnar Íslandsmeistaratitlinum í gærkvöldi.
Valur fagnar Íslandsmeistaratitlinum í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Bara frábært, það er ekkert öðruvísi. Þetta er bara í alla staði frábært. Geggjað að ná þessu loksins,“ sagði Finnur Ingi Stefánsson, hægri hornamaður Vals, í samtali við mbl.is eftir að liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn, hans fyrsta á ferlinum, með öruggum fimm marka og samanlögðum átta marka sigri gegn Haukum á Ásvöllum í gærkvöldi.

Eftir jafnari fyrri leik í Origo-höllinni, sem Valur vann með þremur mörkum, var liðið með yfirhöndina allan tímann í gær. „Já við byrjuðum þetta gríðarlega sterkt. Við létum finna fyrir okkur varnarlega og keyrðum alveg miskunnarlaust í bakið á þeim þannig að þeir fundu það held ég strax að þetta var brekka.

Við gáfum aðeins eftir þegar svona 15-20 mínútur voru liðnar af fyrri hálfleik en héldum alltaf góðum þrýstingi. Við byrjuðum seinni hálfleikinn líka af krafti þannig að ég get ímyndað mér að það hafi verið þungt í þeim að þurfa að komast yfir þetta,“ sagði Finnur Ingi.

Finnur Ingi Stefánsson vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil á ferlinum í …
Finnur Ingi Stefánsson vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil á ferlinum í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valur var yfir allan leikinn í gær en Haukar komust næst einu marki, 20:19, frá þeim snemma í síðari hálfleiknum. Eftir það tóku Valsmenn hins vegar öll völd að nýju og voru með 4-6 marka forystu megnið af hálfleiknum.

„Okkur leið eins og við hefðum stjórn á þessu allan tímann, líka í hinum leiknum þó að það hafi verið mjórra á munum í honum.

Okkur leið vel með það sem við vorum að gera, það sem þeir voru að gera og hvernig við vorum að bregðast við því. Ekki það að við hefðum ekki haft smá áhyggjur en okkur leið vel,“ bætti hann við.

Finnur Ingi er kominn á það sem getur kallast efri ár hjá íþróttamönnum en hann er þó síður en svo á þeim buxunum að fara að leggja skóna á hilluna.

„Ég er með tveggja ára samning þannig að ég geri ekki ráð fyrir öðru en að halda áfram. Þetta er geggjað, mér líður vel og ég er nú bara 34 ára þannig að ég á eitthvað eftir,“ sagði hann kátur að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is