Mætast KA/Þór og ÍBV í Evrópukeppni?

Evrópuleikir milli Akureyringa og Eyjakvenna gætu orðið að veruleika.
Evrópuleikir milli Akureyringa og Eyjakvenna gætu orðið að veruleika. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Sá möguleiki er fyrir hendi að í fyrsta skipti mætist tvö íslensk lið í Evrópukeppni félagsliða í handknattleik en sú staða gæti komið upp í  dag þegar dregið verður til 3. umferðar Evrópubikars kvenna.

Bæði ÍBV og KA/Þór eru komin í 32ja liða úrslit keppninnar eftir sigra gegn andstæðingum frá Grikkland og Kósóvó tvær síðustu helgar. Liðin eru í sitt hvorum styrkleikaflokknum fyrir dráttinn í dag og þar sem ekkert hindrar að lið frá sama landi  geti dregist saman er sá möguleiki fyrir hendi þó hann sé aðeins einn af sextán.

ÍBV er í efri styrkleikaflokki en KA/Þór í þeim neðri. Tvö lið með Íslendinga innanborðs eru í neðri flokknum og gætu því orðið andstæðingar ÍBV. Það eru Kristianstad frá Svíþjóð, sem Andrea Jacobsen leikur með og Zug frá Sviss sem Harpa Rut Jónsdóttir leikur með.

Einnig verður dregið til 3. umferðar í Evrópubikar karla þar sem Haukar eru á meðal þátttökuliða eftir tvo örugga sigra á meisturum Kýpur um fyrri helgi. Haukar eru í efri styrkleikaflokki og gætu m.a. dregist gegn Drammen frá Noregi sem Óskar Ólafsson leikur með.

mbl.is