Jafnt í spennuleik í Safamýri

Vilhelm Poulsen skoraði tólf mörk.
Vilhelm Poulsen skoraði tólf mörk. mbl.is/Óttar Geirsson

Fram og Afturelding skildu jöfn, 27:27, í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Færeyingurinn Vilhelm Poulsen tryggði Fram jafntefli með síðasta marki leiksins.

Afturelding var skrefi á undan stærstan hluta fyrri hálfleiks og var staðan þegar hann var rúmlega hálfnaður 10:6. Þá skoruðu Framarar sex mörk gegn tveimur og var staðan í hálfleik 12:12.

Seinni hálfleikur var hnífjafn og spennandi allan tímann og var því við hæfi að liðin skiptu með sér stigunum.

Vilhelm Poulsen átti enn einn stórleikinn fyrir Fram og skoraði tólf mörk. Breki Dagsson gerði fjögur. Þrándur Gíslason Roth og Guðmundur Bragi Ástþórsson skoruðu sex mörk hvor fyrir Aftureldingu.

Afturelding er í sjöunda sæti með ellefu stig og Fram í sætinu fyrir neðan með tíu.

mbl.is