Jafntefli í æsispennandi grannaslag

Einar Sverrisson var atkvæðamikill fyrir Selfyssinga í kvöld.
Einar Sverrisson var atkvæðamikill fyrir Selfyssinga í kvöld. Mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Selfoss og ÍBV skildu jöfn, 31:31, í æsispennandi Suðurlandsslag í úrvalsdeild karla í handknattleik sem fram fór á Selfossi í kvöld.

Eyjamenn eru áfram taplausir með fjögur stig eftir þrjá leiki en Selfyssingar eru með þrjú stig eftir fjóra leiki.

Fyrri hálfleikurinn var hnífjafn á nánast öllum tölum en Selfoss var þó með tveggja marka forskot að honum loknum, 13:11.

Spennan var rafmögnuð allan síðari hálfleik, jafnt var á öllum tölum frá 14:14 til leiksloka. Elmar Erlingsson skoraði síðasta jöfnunarmark Eyjamanna úr vítakasti rúmri mínútu fyrir leikslok, 31:31. Eyjamenn fengu tækifæri til að tryggja sér sigurinn í lokin en misstu boltann og jafnteflið var staðreynd.

Mörk Selfoss: Einar Sverrisson 10, Guðmundur Hólmar Helgason 5, Ragnar  Jóhannsson 4, Guðjón Baldur Ómarsson 4, Richard Sæþór Sigurðsson 3, Ísak Gústafsson 2, Elvar Elí Hallgrímsson 2, Hannes Höskuldsson 1.

Mörk ÍBV: Rúnar Kárason 8, Elmar Erlingsson 7, Kári Kristján Kristjánsson 5, Dagur Arnarsson 4, Gabríel Martinez 3, Janus Dam Djurhuus 2, Sigtryggur Daði Rúnarsson 1, Ísak Rafnsson 1.

Einar Sverrisson skoraði sitt þúsundasta mark fyrir Selfyssinga þegar hann kom þeim í 10:9 á 25. mínútu og Selfyssingar voru fljótir að koma því í loftið:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert