Svekktur að við gerum þessi aulamistök

Patrekur í leiknum í kvöld.
Patrekur í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, var nokkuð sáttur með sína menn eftir 29:29-jafntefli gegn Haukum í Olís deild karla í handbolta í Garðabæ í kvöld. 

„Haukarnir eru frábærir. Frábær klúbbur með frábært lið og góða leikmenn. Ég vissi það fyrir leik að Andri [Már Rúnarsson] og Guðmundur [Bragi Ástþórsson] væru rosalega snöggir leikmenn sem erfitt væri að eiga við en mér fannst við gera það ágætlega í fyrri hálfleik. Við vorum lélegir að hlaupa til baka og auðvitað er ég með skiptingar sem hafa áhrif á það en í seinni hálfleik breytti ég því aðeins og setti Þórð Tandra í hornið í vörninni. 

Stjarnan var með boltann þegar minna en mínúta var eftir af leiknum, marki yfir. Pétur Árni Hauksson kastaði boltanum þá þvert yfir völlinn þar sem Brynjólfur Snær Brynjólfsson kom á blindu hliðina og stal boltanum. Brynjólfur fann svo Ólaf Ægi Ólafsson sem skoraði jöfnunarmarkið yfir allan völlinn en Stjarnan tók markvörð sinn út af í sókn þar sem liðið var manni færri.

„Þetta var bara hörkuleikur en ég er svekktur að við gerum þessi aulamistök þegar það er svona lítið eftir. Það kemur þarna þversending og við vorum búnir að ræða þetta með Brynjólf, hann hefur oft gert þetta á móti okkur. Þarna eru menn bara ekki alveg með einbeitinguna í lagi og kasta boltanum þvert. Þetta getur gerst og Pétur lagar þetta, hann átti góðan leik sóknarlega. Þetta var vel gert hjá Binna en við vorum búnir að ræða þetta, það er það sem er svekkjandi við þetta.“

Voru það mistök að taka Adam markvörð úr markinu þegar svona lítið var eftir og Stjarnan yfir?

„Nei. Alls ekki. Ég geri bara ráð fyrir því að næst þegar við lendum í þessari stöðu að menn sendi ekki þversendingu.“

Stefán Rafn Sigurmannsson fékk að líta rauða spjaldið fyrir að skjóta í höfuð Arnórs Freys Stefánssonar markvarðar Stjörnunnar úr vítakasti. Stefán sjálfur virtist ósáttur með dóminn en Arnór steinlá eftir og gat ekki haldið leik áfram.

„Ég sá þetta vel. Hann skýtur í hausinn á honum og þetta er bara rautt spjald. Ég er búinn að tala við nokkra Haukamenn líka og ég held að menn séu bara sammála um það. Hann ætlar auðvitað bara að skora en boltinn fer í hausinn á honum og því er þetta klárt rautt spjald.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert