Betur fór en á horfðist hjá Aroni

Meiðsli Arons Pálmarssonar eru væntanlega ekki alvarleg.
Meiðsli Arons Pálmarssonar eru væntanlega ekki alvarleg. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Landsliðsmaðurinn Aron Pálmarsson fór meiddur af velli er Aalborg vann öruggan 41:29-útisigur á Pick Szeged frá Ungverjalandi í Meistaradeild Evrópu í handbolta í gær.

Aron hafði skorað eitt mark og lagt upp annað þegar hann þurfti að fara af velli á tíundu mínútu vegna meiðslanna.

Hann hefur verið að glíma við meiðsli í fæti en meiðslin í gær eru þeim ótengd, þar sem um bakmeiðsli var að ræða. Meiðslin eru væntanlega ekki alvarleg.

„Hann læstist í baki og sjúkraþjálfarinn lagði mikið á sig í hálfleik, en náði ekki að aflæsa því. Í fyrstu hafði ég áhyggjur af því að kálfinn á honum væri til vandræða aftur, en sem betur fer var ekki svo.

Hann verður örugglega ekki lengi frá, en það á eftir að koma í ljós,“ sagði Stefan Madsen, þjálfari Aalborg, í samtali við Nordjyske.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert