Þetta var sterk liðsheild

Snorri Steinn á hliðarlínunni í leiknum í dag.
Snorri Steinn á hliðarlínunni í leiknum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Þetta var sterk liðsheild, við fengum menn inn sem hafa spilað minna og þeir „deliveruðu“ góðum leik,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Valsmanna, eftir að hans lið lagði ÍBV að velli í Vestmannaeyjum með fimm marka mun 33:38. Valsmenn voru aldrei undir í leiknum og léku á als oddi sóknarlega.

Bergur Elí Rúnarsson kom skemmtilega inn í lið Vals og lék 60 mínútur í hægra horninu, hann skoraði átta mörk úr tíu skotum.

„Miðað við hvernig þessi lið spila þá átti ég ekki von á öðru en að þetta væri hratt og það yrði mikið skorað. Bæði lið spila þannig bolta og að mínu mati er það skemmtilegur bolti, maður vill ekki fá á sig mikið af mörkum en þegar bæði lið hraða leiknum þá vill þetta oft verða svona. Við þurfum aðeins að þétta okkur varnarlega samt.“

Óþarfi að hleypa þessu í leik

Töluvert af tæknifeilum litu dagsins ljós í dag en það verður kannski að teljast eðlilegt þegar leikurinn er jafn hraður og raun ber vitni.

„Það er oft fylgifiskur þess, sem betur fer fyrir okkur var það á báða bóga og jafnaðist út. Við bjóðum upp á þetta og ég veit að það vinnur gegn þér þegar þú hraðar leiknum en það er svo sem ekkert nýtt að við spilum svona“

Fyrstu fimmtán mínútur seinni hálfleiks fá Valsmenn ekki bolta varinn en samt breyttist tveggja marka forskot þeirra í hálfleik í fimm marka forskot á þessum kafla.

„Við skoruðum alltaf hinu megin, á þeim kafla voru bæði lið hugsanlega í veseni með markvörsluna. Við byrjuðum leikinn vel og náðum strax fögurra marka forskoti, það var óþarfi fannst mér að hleypa þessu í leik strax í hálfleik. ÍBV gerðu vel og þetta var að smella hjá þeim, á réttum mómentum náðum við að sigla þessum þremur, fjórum, fimm mörkum þegar það voru tíu mínútur eftir. Þá þurftu þeir aðeins að breyta um vörn og taka sénsa.“

Eyjamenn minnka muninn í eitt mark og eru manni fleiri en þá stigu leikmenn upp í Valsliðinu og kláruðu leikinn.

„Það er oft á þannig momentum sem þú þarft á einhverju slíku að halda, það voru einhver moment í seinni hálfleik þar sem ÍBV gat snúið þessu sér í vil. Þó að við séum með forskotið þá er þetta alltaf leikur og ef þeir hefðu náð að komast yfir þá veit maður aldrei hvernig leikurinn hefði þróast. Við stóðum áhlaupið vel og náðum aftur þessu forskoti, það er gott þroskamerki á liðinu og ég er ánægður með liðið og breiddina í þessu prógrammi.“

Ekkert eftir hjá mörgum hérna

Snorri talar um að liðið hafi á ákveðnum mómentum náð að sigla inn sigrinum en það virkaði eins og hans leikmenn gerðu bara akkúrat það sem þurfti þegar það þurfti. Snorri var því spurður hvort hans leikmenn hefðu verið á fullu gasi allan tímann eða bara gert það sem þurfti.

„Ég held að það sé ekkert eftir hjá mörgum hérna, menn lögðu sig alla í þennan leik fannst mér, en ég veit ekki hvernig það var að horfa á þetta. Mér fannst ekki vera sá fýlingur á okkur.“

Valsmenn hafa ferðast mikið síðustu vikur, Ísafjörður, Frakkland, Vestmannaeyjar og svo tekur Ungverjaland við. Er þetta ekki eins og Valsmenn vilja hafa þetta?

„Jú, ekki nokkur spurning. Stundum hristir maður hausinn þegar maður vaknar á nóttunni og er að fara, ég geri það eflaust í nótt þegar ég er að fara líka. Það verður alltaf þannig að við munum alltaf muna eftir þessu, það eru forréttindi að vera í þessu. Þessu fylgir álagið og að einhverjir meiðast, það er það neikvæða við þetta. Ég sagði það fyrir þetta og aftur núna að þetta gefur okkur miklu meira en hitt, ferðalögin, að vera saman og auðvitað að spila svona leiki. Það er svekkjandi að tapa alltaf og við getum tapað rest í þessum riðli, það er ekki það. Í stóru myndinni þá gefur þetta okkur miklu meira en þetta tekur frá okkur.“

Landsliðið sjálfvalið næstu 10 árin

Valsmenn eiga leikmenn í öllum stöðum nema vinstri skyttunni í 35-manna hóp Guðmundar Guðmundssonar landsliðsþjálfara en hópurinn er listi yfir þá leikmenn sem geta verið valdir til að taka þátt í Heimsmeistaramótinu sem fer fram í janúar í Póllandi og Svíþjóð. Snorri vill meina að það sé mikil viðurkenning fyrir strákana.

„Þetta er viðurkenning fyrir Val og strákana líka, fyrsta skrefið er að komast á þennan lista þó svo að landsliðið sé sjálfvalið og verður sjálfvalið næstu 10 árin. Það er erfitt að komast inn í þetta lið, það var það á einhverjum tímapunkti líka áður. Það verða ekki miklar breytingar og ég held að Gummi muni segja eitthvað annað en ég held að það verði enginn hausverkur fyrir hann að velja liðið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert