Magdeburg keypti leikmann vegna meiðsla Ómars

Aron Pálmarsson og Ómar Ingi Magnússon fylgjast með á hliðarlínunni …
Aron Pálmarsson og Ómar Ingi Magnússon fylgjast með á hliðarlínunni á HM í síðasta mánuði eftir að þeir meiddust báðir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þýskalandsmeistarar Magdeburgar í handknattleik voru ekki lengi að bregðast við meiðslum Ómars Inga Magnússonar og festu kaup á örvhentri skyttu sama dag og tilkynnt var að íslenski landsliðsmaðurinn hafi gengist undir aðgerð vegna meiðsla á hásin.

Nýi leikmaðurinn heitir Vladan Lipovina og er stór og stæðileg hægri skytta sem kemur frá Wetzlar, sem leikur einnig í þýsku 1. deildinni. Er hann landsliðsmaður Svartfjallalands.

Í gær tilkynnti Magdeburg að Ómar Ingi hafi gengist undir aðgerð og gæti af þeim sökum verið frá út tímabilið.

Því hafði félagið hraðar hendur og fékk Lipovina til liðs við sig, en Hollendingurinn Kay Smits er einnig hjá Magdeburg og mun þeir félagar því leysa Ómar Inga af það sem eftir lifir tímabils.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert