Þurfti smá tíma til að kveikja á mönnum

Sverrir Pálsson í baráttunni í kvöld.
Sverrir Pálsson í baráttunni í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

„Þetta var gaman í kvöld. Það er alltaf jafn stressandi að vera á bekknum en við lokuðum þessum leik á jákvæðan hátt,“ sagði Þórir Ólafsson, þjálfari Selfoss, í samtali við mbl.is eftir góðan sigur Selfyssinga á Haukum í Olísdeild karla í handbolta í kvöld, 31:28.

„Haukarnir eru á svipuðum stað og við þannig að við vissum hverju við áttum von á og sem betur fer féll þetta okkar megin í kvöld. Við töluðum um það í hálfleik að við gætum ekki verið að fá á okkur aftur 19 mörk í seinni hálfleik og vinnslan var miklu betri varnarlega í seinni hálfleik,“ sagði Þórir.

Þórir Ólafsson þjálfar Selfyssinga.
Þórir Ólafsson þjálfar Selfyssinga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vorum að stíga út og menn að stíga undir og loka á línusendingar. Það var allt öðruvísi taktur í vörninni í seinni hálfleik, talandinn var betri og meira líf. Það þurfti smá tíma til að kveikja á mönnum eftir langt frí,“ sagði Þórir enn fremur.

Frábær varnarleikur og markvarsla í seinni hálfleik skilaði þessum sigri fyrir Selfoss.

„Vilius stóð sig vel í markinu og tók þessa bolta sem hann átti að taka. Það er alltaf þetta klassíska samspil milli varnar og markvörslu. En það var líka góður liðsandi og liðsheild sem skilaði þessu og menn voru jákvæðir. Við duttum aðeins í neikvæðnina í fyrri en töluðum okkur upp úr því og það lagaðist,“ sagði Þórir og bætti við að fríið í deildarkeppninni hafi gert sínu liði gott.

„Já, við vorum sáttir með fríið og nýttum það vel. Tókum góða æfingaferð til Barcelona sem var góð fyrir hópinn og vonandi verðum við áfram þéttir í komandi verkefnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert