Svekkelsi að hafa ekki náð jafnari leik

Benedikt Gunnar Óskarsson meiddist í leiknum í kvöld.
Benedikt Gunnar Óskarsson meiddist í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er náttúrlega svekktur. Það segir sig sjálft að sjö marka tap er frekar stórt og hugsanlega bara verðskuldað,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, í samtali við mbl.is eftir 29:36-tap liðsins fyrir Göppingen í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld.

„Við vorum ekki nægilega góðir í kvöld. Það sem er mest svekkjandi í þessu er að ég fékk svolítið leikinn sem ég vildi – að það væri mikið skorað og hraði.

 Við erum með of mikið af tæknifeilum og klúðrum mikið af góðum færum og það er bara rándýrt í þessu. Svo erum við í vandræðum með þá varnarlega og að kýla á mönnum sem við ráðum illa við,“ hélt hann áfram.

Valur átti oft erfitt með að finna glufur þegar Göppingen náði að stilla upp í varnarleik sínum.

„Já það var erfitt að finna glufur. Við vissum það alveg fyrir fram en þeir gerðu það samt vel. Í fyrri hálfleik erum við með tíu mörk úr uppstilltum sóknarleik og náðum ekki okkar hraðaupphlaupum. Það er eitt og annað sem við hefðum getað gert betur.

Leikurinn þróaðist alveg eins og ég vildi í grunninn en það vantaði bara aðeins meiri gæði hjá okkur til þess að nýta okkur það betur,“ útskýrði Snorri Steinn.

Ef það vantar eitthvað upp á erum við í brekku

Þrátt fyrir fjölda tæknifeila fannst honum þeir ekki einungis koma til vegna góðs varnarleiks Göppingen, þ.e. að Þjóðverjarnir hafi þvingað Valsmenn í tæknifeila.

„Í fyrri hálfleik erum við bara með fjóra tæknifeila í hröðum sóknum, það eru lélegir tæknifeilar og hefur meira með okkur að gera heldur en þá.

Það var alveg vitað og hefur alltaf verið þannig í þessari keppni að ef það vantar eitthvað upp á einhvers staðar þá erum við í brekku, sérstaklega á móti þýsku 1. deildar liði.

Það er svekkelsi að hafa ekki verið með þetta sem aðeins jafnari leik, það verður að segjast alveg eins og er,“ sagði Snorri Steinn.

Benedikt meiddist á nára

Þrátt fyrir sjö marka tap hefur Valur ekki lagt árar í bát fyrir síðari leikinn í Göppingen eftir slétta viku.

„Nei, það væri ekki í okkar anda og ólíkt okkur. Við förum bara til Þýskalands og sækjum til sigurs. Við tökum sénsa þar, það er bara í mínu eðli og ég ætla ekkert að breyta því.

 Við þurfum að skoða þennan leik og erum að missa Benna [Benedikt Gunnar Óskarsson] út og annað slíkt. Við þurfum að sjá hvernig við nálgumst þann leik í framhaldinu,“ sagði hann.

Spurður út í hvers eðlis meiðsli Benedikts Gunnars væru sagði Snorri Steinn að lokum:

„Ég held að það sé tognun í nára. Mér sýnist það á öllu en ég er enginn sérfræðingur í þessu.“

mbl.is