Þjóðverjarnir allt of stór biti fyrir Valsmenn

Magnús Óli Magnússon var markahæstur Valsmanna þegar liðið tók á móti Göppingen frá Þýskalandi í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Evrópudeildar karla í handknattleik í Origo-höllinni á Hlíðarenda í kvöld.

Leiknum lauk með sjö marka sigri Göppingen, 36:29, en Magnús Óli skoraði átta mörk fyrir Valsmenn.

Jafnræði var með liðunum til að byrja með og liðin skiptust á að skora en Jon Lindenchrone kom Göppingen þremur mörkum yfir, 8:5, þegar tólf mínútur voru liðnar af leiknum.

Þá kom frábær kafli hjá Valsmönnum og Stiven Tobar Valencia jafnaði metin fyrir Valsmenn í 9:9 eftir fimmtán mínútna leik.

Benedikt Gunnar Óskarsson kom Valsmönnum svo yfir í fyrsta sinn í leiknum, 10:9, þegar rúmlega tuttugu mínútur voru liðnar af fyrri hálfleik.

Göppingen var hins vegar mun sterkari aðilinn á síðustu tíu mínútum fyrri hálfleiks og Þjóðverjarnir leiddu með fjórum mörkum í hálfleik, 17:13.

Valsmenn byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti, skoruðu fyrstu tvö mörk hálfleiksins, og minnkuðu muninn í tvö mörk, 15:17.

Þá hrukku Þjóðverjarnir í gang, skoruðu fimm mörk í röð, og náðu sjö marka forskoti, 22:15.

Valsmenn neituðu að gefast upp og Stiven Tobar minnkaði muninn aftur í fjögur mörk 19:23, þegar rúmlega fimmtán mínútur voru til leiksloka.

Leikmenn Göppingen voru hins vegar mun sterkari á lokamínútunum og fögnuðu afar sannfærandi sigri í leikslok.

Arnór Snær Óskarsson var næstmarkahæstur í liði Vals með fjögur mörk og þá varði Björgvin Páll Gústavsson 12 skot í markinu.

Síðari leikur liðanna fer fram í Göppingen í Þýskalandi eftir viku.

Valur 29:36 Göppingen opna loka
60. mín. Tryggvi Garðar Jónsson (Valur) skoraði mark
mbl.is