Reynslan og ungviðið

Elsti og yngsti knapi Landsmóts hestamanna 2018. Hulda Ingadóttir er ...
Elsti og yngsti knapi Landsmóts hestamanna 2018. Hulda Ingadóttir er 10 ára gömul og keppir á sínu fyrsta landsmóti. Sigurbjörn Bárðarson hefur verið með frá árinu 1966. mbl/Arnþór Birkisson

Hulda Ingadóttir fæddist í nóvember 2008 og er yngsti keppandinn á landsmóti í ár. Knapar í barnaflokki eru yngstir 10 ára og er þetta því fyrsta mót hennar. Annar heldur reyndari knapi, Sigurbjörn Bárðarson, er 66 ára og telst elsti keppandinn á mótinu. Hulda kemur úr mikilli hestafjölskyldu en systir hennar hefur t.d. verið í afrekshópi knapa. Sigurbjörn segir lykilinn að langlífi í hestaíþróttinni vera mikla æfingu. „Lykillinn er að æfa og æfa meira. Telja sig aldrei vera búinn að ná toppnum. Þú verður alltaf að trúa á að hægt sé að gera betur.“

Sigurbjörn keppti fyrst á Landsmóti árið 1966, þá 14 ára gamall. Hann hefur tekið þátt í öllum landsmótum síðan þá. „Í þá daga var þetta ekki barnasport. Maður fékk uppáskrifað leyfi frá foreldrum til að vera með þegar maður var að byrja, fjórtán til sextán ára. Þannig að maður varð að kynnast þessu með því að stússa í kringum fullorðna fólkið.“ Hann segir jafnframt að aðaláherslan hafi verið á kappreiðar í þá daga. „Mesta sportið var að fara á stökk en þá voru kappreiðar vinsælasta keppnisíþróttin á Íslandi og lengi fram eftir, alveg fram til 1980.“

En hver ætli sé uppáhaldsgangtegund Huldu? Jú, það er stökk. Sigurbjörn hlær og segir að það komi sér ekki á óvart „Það skiptir ekki máli hvaða ár það er; það er mesta spennan að hlaupa og taka á stökk,“ segir Sigurbjörn og tekur Hulda undir það.

Sigurbjörn er á besta aldri og því liggur beinast við að spyrja af hverju hann sé elstur á mótinu? „Þetta er keppnin, það er keppt um að ná ákveðnu skori inn á mótin og þá verðurðu að eiga möguleika. Ég lít bara á þetta sem áskorun.“

ninag@mbl.is