Er eins og nýr maður

Sergio Agüero.
Sergio Agüero. AFP

Sergio Agüero, framherji Manchester City og argentínska landsliðsins í knattspyrnu segist vera eins og nýr maður og sé tilbúinn að spila sína bestu leiki með Argentínumönnum á HM.

Agüero hefur verið glíma við við hnémeiðsli og hefur ekki spilað með Manchester City frá því liðið féll úr leik gegn Liverpool í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar þann 10. apríl. Agüero var valinn í landsliðshóp Argentínu sem mætir Íslandi í fyrsta leik á HM í Moskvu þann 16. júní.

„Hné mitt er eins og nýtt. Ég var alltaf í vandræðum með það en nú finnst mér það öðruvísi, sagði Agüero í viðtali við argentínsku sjónvarpsstöðina TyC.

Agüero á 84 leiki að baki með argentínska landsliðinu og hefur í þeim skorað 36 mörk en hann þarf að takast á við mikla samkeppni um að komast í byrjunarliðið enda eru sóknarmenn í liðinu leikmenn eins og Lionel Messi, Gonzalo Higuain, Paulo Dybala, Diego Perotti og Mauro Icardi.

mbl.is