„Ég er á réttum stað“

Aron Einar Gunnarsson og Gylfi Þór Sigurðsson á landsliðsæfingunni í …
Aron Einar Gunnarsson og Gylfi Þór Sigurðsson á landsliðsæfingunni í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aron Einar Gunnarsson skokkaði hægt hringinn í kringum Laugardalsvöll í gærmorgun á meðan liðsfélagar hans í íslenska landsliðinu hituðu saman upp. Eftir það dró Aron sig í hlé.

Með Aroni var hans þarfasti þjónn næstu vikurnar, sjúkraþjálfarinn Friðrik Ellert Jónsson, og bæklunarskurðlæknirinn Sveinbjörn Brandsson bættist síðan við. Saman spjallaði þríeykið svo í hálfum hljóðum um málefni sem hreinlega varðar þjóðarhag; stöðuna á hné og ökkla Arons sem sködduðust í leik með Cardiff fyrir mánuði. Aron verður ekki með í vináttulandsleik gegn Noregi á laugardag og sennilega ekki heldur gegn Gana á fimmtudag eftir viku, en er tilbúinn að fórna öllu til að mæta Argentínu í Moskvu í fyrsta leik Íslands á HM í knattspyrnu hinn 16. júní.

„Við spilum þetta eftir eyranu og sjáum hvernig ég stend varðandi seinni vináttulandsleikinn. Það liggur ekkert á. Auðvitað skipta þessir leikir miklu máli en það er fínt að vera þó alla vega í kringum þetta og sjá öðruvísi hlið á þessu, ef maður er ekki sjálfur 100% klár. Það kemur í ljós hvernig ég kem út úr æfingum næstu viku og hvort ég get þá eitthvað verið með í seinni leiknum,“ segir Aron.

„Ég er á réttri braut ennþá og er mjög bjartsýnn á að vera klár fyrir Argentínuleikinn. Það hefur verið planið og ég er á réttum stað í ferlinu,“ bætir hann við. Aron er nýkominn til Íslands úr endurhæfingu í Katar, en eins og fyrr segir hefur líf hans snúist um það síðustu vikur að ná heilsu fyrir HM. 

Sjá ítarlegt viðtal við Aron Einar í heild sinni í í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert