Segir Neymar haga sér eins og trúður

Juan Carlos Osorio, þjálfari mexíkóska landsliðins í fótbolta, er búinn að fá sig fullsaddan af Brasilíumanninum Neymar. Neymar skoraði eitt og lagði upp annað mark í 2:0-sigri Brasilíu á Mexíkó í 16-liða úrslitum á HM í dag. 

Neymar hefur hins vegar verið gagnrýndur á mótinu fyrir að fara auðveldlega niður og vera með leikaraskap og Osorio er ósáttur við það. 

„Þetta er leiðinlegt fyrir fótboltann. Leikirnir eru harðir og það er leiðinlegt að hann sé eins og trúður," sagði Osorio. Miguel Layun steig á Neymar utan vallar eftir baráttu þeirra um boltann í síðari hálfleik og gerði Brasilíumaðurinn ansi mikið úr atvikinu.

„Þetta er leiðinlegt því það eru margir að horfa og sérstaklega fyrir krakkana sem eru að fylgjast með. Leikmenn eiga ekki að vera með leikaraskap og þetta hafði áhrif á okkar leik,“ bætti Osorio við.  

Neymar skaut sjálfur á Mexíkóana eftir leik. „Það var stigið á mig og það má ekki. Þeir töluðu mikið um mig eftir leik en nú eru þeir á leiðinni heim,“ sagði Neymar. 

Neymar er mikið í grasinu.
Neymar er mikið í grasinu. AFP
mbl.is