Hellti sér yfir leikmann fyrir að gráta

Frakkinn Lucas Hernandez huggar José Giménez eftir leikinn.
Frakkinn Lucas Hernandez huggar José Giménez eftir leikinn. AFP

Tilfinningarnar báru Úrúgvæjann José Giménez ofurliði er hann og félagar töpuðu 2:0 gegn Frakklandi í 8-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í Rússlandi fyrr í dag.

Var Giménez svo hnugginn yfir tapinu að hann var byrjaður að gráta áður en leiknum lauk og sást meðal annars hágráta í útsendingu leiksins er hann stóð vaktina í varnarvegg Úrúgvæ þegar Frakkar fengu aukaspyrnu undir lok leiks.

Þessi tilþrif féllu í grýttan jarðveg hjá Gary Neville, fyrrverandi leikmanni Manchester United og enska landsliðsins, sem var að lýsa leiknum fyrir ITV-sjónvarpsstöðina.

„Ég hef ekkert á móti því að sýna tilfinningar og ástríðu en þetta er til háborinnar skammar,“ sagði Neville meðal annars í útsendingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert