Gæti fengið leikbann eftir andrússnesk ummæli

Domagoj Vida í leiknum í gær.
Domagoj Vida í leiknum í gær. AFP

Króatar skutu gestgjafa Rússa úr leik á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu eftir 4:3-sigur í vítakeppni en leiknum hafði áður lokið með 2:2-jafntefli.

Domagoj Vida, sem skoraði til að mynda annað mark Króata í leiknum, á nú yfir höfði sér leikbann og gæti hann misst af undanúrslitunum en Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, rannsakar ummæli sem hann lét falla eftir leikinn.

Vida lék um árabil í Úkraínu og eftir leik lét hann pólitísk ummæli falla en illt er á milli Rússlands og Úkraínu; Rússar innlimuðu Krímskaga en yfirvöld í Úkraínu viðurkenna það ekki.

„Lifi Úkraína!“ var það sem Vida sagði við sjónvarpsmyndavélarnar, en þetta eru nokkurs konar baráttuorð andrússneskra þjóðernissinna í Úkraínu.

Pólitísk skilaboð eru með öllu óleyfð og getur leikmaður átt von á bæði leikbanni og sekt brjóti hann gegn agalögum FIFA. Vida hefur sjálfur reynt að gera lítið úr ummælunum og sagði hann þau meðal annars hafa verið sögð í gamni. Hvort hann sleppi við leikbann á enn eftir að koma í ljós.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert