„Þetta er ótrúleg saga“

Niclas Füllkrug fagnar markinu mikilvæga gegn Spánverjum.
Niclas Füllkrug fagnar markinu mikilvæga gegn Spánverjum. AFP/Ina Fassbender

Hetju Þýskalands í 1:1-jafntefli gegn Spáni á heimsmeistaramóti karla í knattspyrnu í Katar kannast líklega ekki allir íslenskir knattspyrnuáhugamenn við. Eftir að Spánverjar höfðu komist yfir eftir um klukkustundar leik setti Hansi Flick, þjálfari Þýskalands, hinn 29 ára sóknarmann, Niclas Füllkrug, inn á fyrir sóknarmanninn kunna Thomas Müller.

Füllkrug þakkaði traustið 13 mínútum síðar þegar hann komst inn fyrir vörn Spánverja og skoraði glæsilega hjá Unai Simon í marki Spánar og jafnaði metin fyrir Þýskaland.

Þetta var þriðji landsleikur Füllkrugs, sem skoraði í frumraun sinni í vináttulandsleik gegn Óman um miðjan nóvember. Hann hefur alltaf komið inn af bekknum og samtals leikið innan við 90 mínútur fyrir A-landslið Þýskalands.

Einn Íslendingur þekkir Niclas Füllkrug líklega betur en við hinir. Á keppnistímabilinu 2015-2016 lék Rúrik Gíslason með Füllkrug hjá Nürnberg en Rúrik hafði haft vistaskipti frá FC Köbenhavn um sumarið. Füllkrug átti flott tímabil 2015-2016 er hann skoraði 14 mörk og gaf 4 stoðsendingar að auki í þeim 30 leikjum sem hans naut við og var keyptur til Hannover á rúmlega 2 milljónir evra eftir tímabilið.

„Þetta er ótrúleg saga, sérstaklega í ljósi þess að Þjóðverjar eru gjarnan fljótir að afskrifa leikmenn sem annaðhvort hafa verið mikið meiddir eða blómstra seint á sínum ferli. Hann var góður hjá Nürnberg og hann er einn af þessum góðu liðsfélögum sem ég hef átt,“ sagði Rúrik í samtali við Morgunblaðið.

Greinin í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert