Læt Mbappé ekki koma í veg fyrir að ég verði heimsmeistari

Kyle Walker er klár í slaginn við Mbappé.
Kyle Walker er klár í slaginn við Mbappé. AFP/Pablo Porciuncula

England og Frakkland mætast í átta liða úrslitum heimsmeistaramóts karla í fótbolta í Katar næstkomandi laugardag. Englendingar þurfa að hafa góðar gætur á Kylian Mbappé, stjörnusóknarmanni Frakka, en hann er markahæstur á mótinu með fimm mörk.

Kyle Walker, hægri bakvörður Englendinga, fær væntanlega það verðuga verkefni að stöðva Mbappé, sem leikur oftast sem vinstri sóknarmaður. Mikið hefur verið rætt og ritað um ógnina sem stafar af Mbappé og einvígi hans við Walker.

„Þetta er ekki England á móti Mbappé, þetta er England á móti Frakklandi,“ sagði Walker á blaðamannafundi enska liðsins í dag. „Við vitum að hann er góður leikmaður, sem hefur verið að spila vel, en ég ætla ekki að leggja niður rauðan dregil fyrir hann og segja honum að skora.

Kylian Mbappé er markahæstur á HM.
Kylian Mbappé er markahæstur á HM. AFP/Franck Fife

Ég er að spila fyrir landið mitt í átta liða úrslitum á HM og það er allt undir. Ég læt Mbappé ekki koma í veg fyrir að ég verði heimsmeistari með landinu mínu,“ bætti bakvörðurinn ákveðinn við.

Walker og Mbappé hafa mæst fjórum sinnum með félagsliðum sínum, en Walker leikur með Manchester City og Mbappé með París SG. City hefur unnið þrjá af leikjunum fjórum og Mbappé aðeins skorað eitt mark gegn enska liðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert