Danir tóku Sílemenn í kennslustund

Mikkel Hansen að skora eitt af 7 mörkum sínum í …
Mikkel Hansen að skora eitt af 7 mörkum sínum í kvöld. AFP

Danir tóku Sílemenn í kennslustund þegar þjóðirnar áttust við á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Royal Arena í Kaupmannahöfn í kvöld.

Danir hrósuðu 23 marka sigri 39:16 og eins og tölurnar gefa til kynna voru yfirburðir Dana algjörir í leiknum. Sílemenn skoruðu fyrsta markið en þar með var dagskránni lokið hjá þeim. Danir röðuðu hverju markinu á fætur öðru úr hraðaupphlaupum og þegar fyrri hálfleikurinn var allur var munurinn 18 mörk, 22:4. Sílemönnum tókst ekki að skora eitt einasta mark síðustu 20 mínúturnar í fyrri hálfleik.

Nicolaj Jacobsen, þjálfari danska landsliðsins, skipti nánast um lið í seinni hálfleik enda úrslitin löngu ráðin og Sílemönnum tókst að rétta aðeins úr kútnum og skora 12 mörk.

Casper Mortensen, sem lék bara í fyrri hálfleik, var markahæstur í liði Dana með 8 mörk og næstur kom stórskyttan Mikkel Hansen með 7. Rodrigo Salinas var atkvæðamestur í arfaslöku liði Síle með 4 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert