Góð byrjun hjá Kristjáni - Frakkar í basli

Kristján Andrésson fagnar á hliðarlínunni í kvöld.
Kristján Andrésson fagnar á hliðarlínunni í kvöld. AFP

Sænska karlalandsliðið í handbolta undir stjórn Kristján Andréssonar vann 27:24-sigur á Egyptalandi í 1. umferð í riðlakeppni heimsmeistaramótsins í kvöld. Svíum var spáð öruggum sigri fyrir leik, en lærisveinar Kristjáns þurftu að hafa mikið fyrir sigrinum. 

Staðan í hálfleik var 13:11, Svíum í vil. Þeir sænsku skoruðu fyrstu þrjú mörk síðari hálfleiks og breyttu stöðunni í 16:11. Egyptar gáfust hins vegar ekki upp og með glæsilegum kafla síðari hluta seinni hálfleiks tókst þeim að jafna, 24:24. Svíar skoruðu hins vegar þrjú síðustu mörkin og tryggðu sér stigin tvö. 

Lærisveinar Arons Kristjánssonar hjá Barein máttu þola tíu marka tap fyrir Evrópumeisturum  Spánverja í B-riðli íslenska liðsins, 33:23. Staðan í hálfleik var 16:11, Spánverjum í vil. Barein stóð í spænska liðinu framan af í síðari hálfleik. 

Staðan var 24:19, þegar skammt var eftir en Spánverjar skoruðu þá fimm mörk í röð og lögðu gruninn að öruggum sigri. Barein mætir Makedóníu í næsta leik og Spánverjar mæta íslenska liðinu á sunnudag. 

Ríkjandi heimsmeistarar Frakka áttu í miklu basli með að vinna Brasilíu, 24:22. Staðan í hálfeik var 16:13, Frökkum í vil og skoruðu þeir fyrstu þrjú mörk seinni hálfleiks og komust í 19:13.

Brasilía gafst hins vegar ekki upp og skoraði næstu fimm mörkin og minnkaði muninn í eitt mark, 19:18. Staðan var svo jöfn 20:20 þegar skammt var eftir, en Frakkar voru örlítið sterkari á lokakaflanum. 

Loks unnu Norðmenn sannfærandi 34:24-sigur á Túnis. Staðan í hálfleik var 18:13, Norðmönnum í vil, og var sigurinn aldrei í mikilli hættu. 

Frakkar lentu í vandræðum gegn Brasilíu.
Frakkar lentu í vandræðum gegn Brasilíu. AFP
mbl.is