Örugglega varað við okkur

Dagur Sigurðsson þjálfari japanska landsliðsins.
Dagur Sigurðsson þjálfari japanska landsliðsins. AFP

„Guðmundur hefur örugglega varað strákana við okkur mánuðum saman svo ég held að frammistaða okkar gegn Spánverjum breyti ekki miklu þar um,“ sagði Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Japans í handknattleik karla, í samtali við Morgunblaðið spurður hvort góður leikur hans manna gegn Evrópumeisturum Spánar í fyrrakvöld á HM gæti skotið Guðmundi Þórði Guðmundssyni, landsliðsþjálfara Íslands, og mönnum hans skelk í bringu fyrir viðureign þjóðanna á heimsmeistaramótinu í handknattleik í dag.

„Ég verð sáttur ef við náum góðum leik gegn Íslandi og getum veitt liðinu einhverja keppni. Við munum hinsvegar eftir síðasta leik okkar við íslenska landsliðið. Þá töpuðum við með 17 marka mun í Laugardalshöllinni. Af þeim leik má ráða að munurinn er enn talsverður á liðunum þótt vissulega hafi mínu liði farið fram. Þess utan eflir frammistaðan gegn Spánverjum sjálfstraust okkar,“ sagði Dagur ennfremur. Leikurinn í dag hefst klukkan 14.30.

Japanska landsliðið hefur tapað öllum þremur viðureignum sínum í mótinu til þessa. Í fyrstu umferð lá liðið fyrir landsliði Makedóníu, 38:29, í leik þar sem Makedóníumenn voru með tögl og hagldir frá upphafi. Japan átti enga möguleika gegn Króatíu í annarri umferð. Liðið byrjaði illa og lenti undir, 7:1, en gafst ekki upp og náði að minnka muninn í 18:14 í upphafi síðari hálfleiks áður en leiðir skildu á ný. Króatar náðu mest tíu marka forskoti í síðari hálfleik.

Spánverjar vanmátu Japani hressilega í fyrrakvöld og ætluðu sér að vinna leikinn eins fyrirhafnarlítið og mögulegt var. Það reyndist vanhugsað hjá þeim. Fyrir vikið lentu þeir í kröppum dansi gegn áköfum Japönum sem höfðu yfirhöndina allan fyrri hálfleik. Ágætur upphafskafli í síðari hálfleik gaf Spánverjum forskot sem þeir gátu hangið á til leiksloka.

Sjá alla greinina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert