Of margir slæmir kaflar

Elvar Örn Jónsson fagnar marki í kappleik á HM.
Elvar Örn Jónsson fagnar marki í kappleik á HM. AFP

„Fyrst og fremst svekkjandi tap eftir að hafa byrjað leikinn mjög illa. En þetta fer í reynslubankann,“ sagði Elvar Örn Jónsson sem stóð í eldlínunni með íslenska landsliðinu í handknattleik í kvöld í leiknum við heimsmeistara Frakka í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik í Þýskalandi.

„Okkur tókst að svara fyrir okkur eftir slæma byrjun og minnka muninn í eitt eða tvö mörk. Þá kom annar kafli þar sem Frakkarnir lokuðu á okkur og náðu góðu forskoti á ný snemma í síðari hálfleik,“ sagði Elvar Örn sem þótti íslenska liðið tapa boltanum of oft á einfaldan hátt.  Eins hafi liðinu ekki tekist að nýta þau tækifæri sem gáfust þegar það var manni fleiri. „Þar meðal annars urðu mér á mistök. Þá valdi ég oft ekki rétta kostinn.“

Elvar Örn segir segir mikinn lærdóm felast í að mæta svo öflugu liði og það franska er með stóra og sterka leikmenn sem hafa marga fjöruna sopið. „Margir okkar eru að taka þátt í HM í fyrsta sinn og erum enn að læra. En við viljum líka vinna alla leiki sem við förum í hver sem andstæðingurinn er. Frakkar eru líkamlega sterkir og vinna mikið á krafti og hraða. Á móti þeim má ekki fá marga slæma kafla, maður getur kannski sloppið með einn en þeir voru fleiri hjá okkur.“

Um skeið lék Elvar Örn með tveimur frændum sínum í sóknarleik íslenska liðsins, þeim Teiti Erni Einarssyni og Hauki Þrastarsyni en sá síðastnefndi var að leika sinn fyrsta HM-leik aðeins 17 ára gamall. Elvar og Teitur er lítið eitt eldri, ekki mikið þó.

„Fyrst og fremst er gaman að sjá ávöxt af starfi handknattleiksdeildarinnar á Selfossi um árabil. Það er að skila sér í landsliðið,“ sagði Elvar sem reiknar með að mynd af þeim frændum skili sér inn í fjölskyldualbúmin til minningar um þessa sögulegu stund.

mbl.is