Þurfum að bera meiri virðingu fyrir boltanum

Gísli Þorgeir Kristjánsson sækir að leikmönnum Portúgals í Kaíró í …
Gísli Þorgeir Kristjánsson sækir að leikmönnum Portúgals í Kaíró í gær. AFP

„Við höfum lagt þennan Portúgalsleik til hliðar og við erum fyrst og fremst að hugsa um leikinn gegn Alsír núna,“ sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við mbl.is í dag.

Ísland mætir Alsír í öðrum leik sínum í New Capitol Sports-höllinni í Kaíró á  HM í Egyptalandi á morgun F-riðli keppninnar.

Íslenska liðið er án stiga eftir 25:23-tap gegn Portúgal í fyrsta leik en Alsír vann eins marks sigur gegn Marokkó í sínum fyrsta leik, 24:23.

„Staðan er bara þannig að hver einasti leikur í mótinu er úrslitaleikur fyrir okkur, ef við ætlum okkur að taka einhver stig með okkur í milliriðilinn. Það eina sem við getum gert er að fókusa á næsta leik og stemningin í hópnum er mjög góð fyrir leikinn á morgun.

Það kemur ekkert annað en sigur til greina en við gerum okkur líka grein fyrir því að við erum að fara mæta allt öðruvísi liði en Portúgal. Portúgalska liðið er klárlega með betra lið en Alsír á pappír en það þýðir ekki að við getum leyft okkur að slaka eitthvað á gegn Alsír.

Hvort það henti okkur eitthvað betur að leika gegn Alsír en Portúgal þarf bara að koma í ljós. Við þurfum að spila á okkar styrkleikum og vera klókari en gegn Portúgal. Við þurfum að bera meiri virðingu fyrir boltanum því við megum ekki tapa honum jafn oft og við gerðum gegn Portúgal.

Menn eru virkilega hungraðir að gera vel á þessu móti og við ætlum okkur að standa okkur vel fyrir land og þjóð,“ bætti Gísli við.

Það er nóg um að vera á bekknum hjá íslenska …
Það er nóg um að vera á bekknum hjá íslenska liðinu í gær. AFP

Ekkert mál að gíra sig upp

Gísli Þorgeir er að taka þátt í sínu öðru stórmóti en hann missti af EM á síðasta ári vegna meiðsla á öxl.

„Það er sérstakt að vera hérna án áhorfenda enda erfitt að lýsa tilfinningunni þegar maður var að hita upp á HM í München og heyrði íslenska stuðningsmenn syngja „Ég er kominn heim“ sem dæmi. Það var algjört gæsahúðamóment en á sama tíma er þetta líka landsleikur í handbolti sem maður er að fara spila.

Það er þess vegna ekki erfitt að gíra sig upp í leikina þótt við hefðum að sjálfsögðu viljað hafa íslenska stuðningsmenn með okkur hérna í Egyptalandi. Persónulega finnst mér ekkert erfiðara að gíra mig upp því þetta snýst fyrst og fremst um að fara af fullum krafti í það sem maður er að gera. Það þurfa allir að leggjast á eitt í að gera sitt allra besta og svo er bara að sjá hverju það skilar okkur,“ sagði Gísli Þorgeir í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert