Varði 22 skot í leiknum gegn Marokkó

Robert Julian Duranona og Róbert Sighvatsson í leiknum gegn Marokkó …
Robert Julian Duranona og Róbert Sighvatsson í leiknum gegn Marokkó á HM 2001. Báðir komu þeir við sögu á línunni í leiknum. Þegar leikmenn Marokkó komu langt út á völlinn var um tíma brugðið á það ráð að senda Duranona einnig inn á línuna. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Tuttugu ár eru síðan karlalandslið Íslands og Marokkó mættust í eina skiptið hingað til á handboltavellinum og var það einmitt í lokakeppni HM.

Keppnin fór þá fram í Frakkalndi og Ísland og Marokkó voru saman í riðli rétt eins og í Egyptalandi. Þá eins og nú mættust þjóðirnar einnig í þriðja leik og Ísland vann öruggan sigur 31:23. Leikurinn fór fram í Montpellier hinn 25. janúar 2001 og voru um þúsund áhorfendur á leiknum.

Dagur Sigurðsson fyrirliði var hvíldur vegna meiðsla og í hans stað kom Ragnar Óskarsson inn í liðið. Guðmundur Hrafnkelsson var fyrirliði í fjarveru Dags og var þetta í fyrsta skipti sem Guðmundur var fyrirliði á HM. Var hann aðeins annar markvörðurinn sem verið hafði fyrirliði hjá íslenska landsliðinu en Einar Þorvarðarson var fyrirliði í einum leik á HM í Sviss 1986 þegar Þorbjörn Jensson var ekki á skýrslu. 

Guðmundur Hrafnkelsson í leiknum gegn Marokkó í Montpellier en hann …
Guðmundur Hrafnkelsson í leiknum gegn Marokkó í Montpellier en hann var fyrirliði Íslands í leiknum. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Guðmundur var dýrmætur í leiknum og varði 22 skot frá leikmönnum Marokkó. Patrekur Jóhannesson var markahæstur með 9 mörk í tólf tilraunum. Ólafur Stefánsson skoraði 6 í átta tilraunum og Einar Örn Jónsson skoraði einnig 6 mörk og nýtti öll sín færi.

Ísland náði tökum á leiknum eftir 20 mínútur eða svo og var var yfir 16:13 að loknum fyrri hálfleik en staðan hafði verið 12:12 á einum tímapunkti. Þegar leið á náði Ísland tólf marka forskoti 29:17 en Marokkó lagaði stöðuna á lokakaflanum.

„En það var annar bragur á leik Íslands þegar síðari hálfleikurinn hófst og ljóst að hugarfarið var annað. Undir lok fyrri hálfleiks hafði verið bakkað úr 5:1-vörn í 6:0 með betri árangri og þannig var haldið áfram eftir hlé. Öllum glufum var lokað og í sókninni tók Patrekur af skarið og hóf hálfleikinn á þremur þrumufleygum. Eftir tíu mínútur var staðan orðin 23:14 og allar áhyggjur af því að stigin gætu verið í hættu voru úr sögunni. Íslensku leikmennirnir entust á þessum nótum í tíu mínútur í viðbót og sýndu oft glæsileg sóknartilþrif sem áhorfendur í René Bougnol-höllinni kunnu vel að meta. Ekki síst þegar Duranona greip til gamallar brellu í hraðaupphlaupi og Guðjón Valur og Einar Örn settu upp sirkusmark,“ skrifaði Víðir Sigurðsson meðal annars frá Montpellier í umfjöllun sinni í Morgunblaðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert