Lærisveinar Alfreðs leika um fimmta sætið

Lukas Mertens, Juri Knorr og Kai Häfner, leikmenn Þýskalands.
Lukas Mertens, Juri Knorr og Kai Häfner, leikmenn Þýskalands. AFP/Janek Skarzynski

Þýskaland, undir handleiðslu Alfreðs Gíslasonar, hafði í dag betur gegn Egyptalandi, 35:34 í framlengdum leik um 5. – 8. sæti á heimsmeistaramótinu í handknattleik og mætir því annað hvort Noregi eða Ungverjalandi í leik um fimmta sætið á sunnudag.

Þjóðverjar voru mun sterkari aðilinn stærstan hluta fyrri hálfleiks og náð mesta sjö marka forystu, 15:8 og 16:9.

Í kjölfarið tóku Egyptar hins vegar mjög vel við sér og minnkuðu muninn niður í þrjú mörk, 17:14, áður en fyrri hálfleikur var úti.

Síðari hálfleikur þróaðist á afar keimlíkan hátt.

Þjóðverjar keyrðu yfir Egypta til að byrja með og náðu mest átta marka forystu, 27:19.

Sem fyrr gáfust Egyptar þó ekki upp og náðu að minnka muninn niður í aðeins tvö mörk, 28:26, þegar tæpar sjö mínútur lifðu leiks, og jöfnuðu svo metin í 30:30 þegar um þrjár mínútur voru eftir.

Þrátt fyrir að hafa nokkuð drjúgan tíma til þess að knýja fram sigurmark í venjulegum leiktíma tókst hvorugu liðinu að gera það og því þurfti að grípa til framlengingar.

Í henni var allt í járnum en að lokum reyndist Þýskaland hlutskarpara og vann með minnsta mun.

Juri Knorr var markahæstur hjá Þýskalandi með sjö mörk og strax í humátt á eftir honum komu Johannes Golla og Julian Koster, báðir með sex.

Markahæstur í liði Egyptalands voru Yehia Elderaa og Ali Mohamed, báðir með sjö mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert