SA Víkingar saxa á topplið Esju

Jussi Sipponen skoraði eitt marka SA Víkinga í sigri liðsins …
Jussi Sipponen skoraði eitt marka SA Víkinga í sigri liðsins gegn Birninum í dag. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

SA Víkingur saxar á forskot Esju í Hertz-deildar karla í íshokkí með öruggum 8:3-sigri sínum þegar liðið mætti Birninum á heimavelli sínum í Skautahöllinni á Akureyri í dag. 

Artjoms Dasutins kom reyndar Birninum yfir strax á fyrstu mínútu leiksins. Rúnar Rúnarsson og Jóhann Leifsson komu hins vegar SA Víkingum yfir með mörkum sínum með rúmlega þriggja mínútna millibili um miðbik fyrsta leikhluta. 

Hilmar Sverrisson jafnaði svo metin fyrir Björninn í 2:2 skömmu áður en fyrsta leikhluta lauk. Annar leikhluti var eign SA Víkinga, en Jussi Sipponen, Andri Mikaelsson og Björn Jakobsson komu heimamönnum frá Akureyri í 5:2 með mörkum sínum í öðrum leikhluta. 

Edmunds Induss lagaði stöðuna fyrir Björninn með marki sínu í upphafi þriðja leikhluta. Andri Mikaelsson jók forystu SA Víkinga í þrjú mörk þegar hann skoraði annað mark sitt í leiknum skömmu síðar. 

Jordan Steger gerði svo endanlega út um leikinn með því að skora tvö mörk á stuttum tíma undir lok leiksins. Niðurstaðan fimm marka sigur SA Víkinga sem er nú fjórum stigum á eftir Esju og á einnig leiki til góða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert