Esja ætlar að draga lið sitt úr keppni

Lið Esju.
Lið Esju. Ljósmynd/Facebook-síða UMFK Esju

Á stjórnarfundi UMFK Esju sem haldinn var þann 27. febrúar sl. var tekin sú ákvörðun að draga lið núverandi Íslandsmeistara UMFK Esju í íshokkí úr keppni í Íslands og bikarmeistaramóti næsta keppnistímabili 2018 - 2019.

Þetta kemur fram á Facebook-síðu UMFK Esju en þar segir ennfremur;

„Fyrir liggur fjórða árið í röð, höfnun frá ÍBR og ÍHÍ á að hefja uppbyggingu barna og unglingastarfs. Mikill áhugi hefur verið innan raða íshokkídeildar Esju að byrja öflugt barnastarf svo félagið geti vaxið og dafnað með jafngóðum árangri og Íslandsmeistarar Esju hafa náð á undanförnum 4 árum.

Forsenda og rekstur íþróttafélags er og verður uppbygging barna og unglingastarfs. Þar verður nýliðunin og þaðan koma sjálfboðaliðarnir sem nauðsynlegir eru öllu íþróttastarfi. Á þessum fjórum árum sem UMFK Esja hefur starfað höfum við einungis haft meistaraflokk og það gengur ekki lengur.

Í byrjun nóvember sl. boðaði stjórn ÍHÍ stjórn UMFK Esju á fund til að fara yfir málin eins og þeir kölluðu það. Þar lagði stjórn UMFK Esju fram tillögu þess efnis að fulltrúar úr stjórn ÍHÍ ásamt fulltrúum frá Esju og Skautafélagi Reykjavíkur mynduðu starfshóp þar sem þessi félög deila Skautahöllinni í Laugardal, starfshópnum var ætlað að leita leiða til að barnastarf gæti hafist hjá UMFK Esju á næsta keppnistímabili, haustið 2018. Af því hefur ekki orðið og tók það stjórn ÍHÍ rúma þrjá mánuði að senda okkur endanlega niðurstöðu í því máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert